Hæstiréttur staðfestir að stefnur í einkamálum verði að vera á pappír – Hvað þýðir þetta fyrir stafræna málsmeðferð?
Þann 26. febrúar féll dómur Hæstaréttar í máli nr. 1/2025, Menntasjóður námsmanna gegn fyrrverandi skjólstæðingi
Málið snerist um það hvort stefna, sem birt var með stafrænum hætti og undirrituð með fullgildri rafrænni undirskrift, teldist birt í samræmi við XIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í umræddu máli var örugg rekjanleg gagnasendingarþjónusta Justikal notuð til að birta stefnuna.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að stefnur í einkamálum verði ekki birtar fyrir aðila máls eða lagðar fram á dómþingi á öðru formi en á pappír. Taldi dómstóllinn að um væri að ræða formkröfu á sviði réttarfars sem teldist meðal meginreglna á því réttarsviði.
Samspil laga um meðferð einkamála og laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti
Í umræddu máli var óumdeilt að stefna í málinu var birt stefnda sjálfum. Í niðurlagi stefnunnar í málinu er eftirfarandi ritað: „Samrit stefnunnar hefur verið afhent mér. Þetta er staðfest með rafrænni undirritun.“ Stefndi undirritaði stefnuna með fullgildri rafrænni undirskrift til að staðfesta móttöku stefnunnar og að samrit stefnunnar hafi verið afhent honum.
Í málinu reyndi á hvort þessi rafræna undirskrift, sem ekki voru bornar brigður á, stæðist áskilnað a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Í ákvæðinu er sem fyrr segir mælt fyrir um að það komi í stað stefnubirtingar og sé jafngilt henni hafi stefnu verið komið á framfæri með því að stefndi hafi sjálfur ritað undir yfirlýsingu á stefnuna um að eintak hennar hafi verið afhent honum. Byggði sóknaraðili einkum á því sem fram kemur í 1. mgr. 25. gr. fyrrnefndrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 910/2014. Samkvæmt henni megi ekki hafna því að rafræn undirskrift öðlist réttaráhrif og sé viðurkennd sem sönnunargagn í málarekstri einungis af þeirri ástæðu að hún sé á rafrænu formi eða uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til fullgildra rafrænna undirskrifta sem og að fullgild rafræn undirskrift hafi sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift, sbr. 2. mgr. greinarinnar.
Í lögum um meðferð einkamála er ekki sérstaklega kveðið á um að stefnur þurfi að vera á pappír. Hinsvegar byggir Hæstiréttur niðurstöðu sína meðal annars á dómafordæmum sem féllu fyrir innleiðingu eIDAS löggjafarinnar í íslenskan rétt. Í niðustöðu dómsins segir að fjallað hafi verið um áskilnað og þýðingu forms skjala í réttarfarslöggjöf í dómum Hæstaréttar í málum nr. 115/2010 og nr. 557/2013. Í síðargreinda dóminum sem varðaði kröfulýsingu við slit fjármálafyrirtækis var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem fram kom að stefnur í einkamálum yrðu ekki birtar fyrir aðila máls eða lagðar fram á dómþingi nema á pappír. Væri um að ræða formkröfu á sviði réttarfars sem teldist meðal meginreglna á því réttarsviði. Breytti þágildandi 8. gr. laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti engu um þá niðurstöðu.
Dómurinn tekur fram að réttarfarslög setji ríkar formkröfur, þar á meðal um birtingu stefnu og jafngildi hennar, eins og áritun á stefnu. Slíkar reglur séu grundvallarþáttur í réttaröryggi við meðferð dómsmála. Markmið þeirra er að tryggja að stefnda sé kunnugt um málshöfðun á hendur sér og efni hennar, auk þess að stuðla að fyrirsjáanleika og festu, þannig að ekki sé háð mati hverju sinni hvort stefna hafi verið birt með réttum hætti.
Við mat á því hvort að lög nr. 55/2019 hefðu breytt formskilyrðum laga nr. 91/1991 vísaði Hæstiréttur til þeirra ríku formkrafna sem gerðar eru í réttarfarslögum. Hæstiréttur tók fram að með lögum nr. 53/2024 hefði 83. gr. laga nr. 91/1991 breytt þannig að orðið „eintak“ kom í stað orðsins „samrit“ í 3. mgr. ákvæðisins í samræmi við megintilgang þeirra laga um að gera réttarfarslöggjöfina tæknilega hlutlausa um afhendingarmáta gagna og tilkynninga. Í 50. gr. laganna, sbr. nú 4. mgr. 1. gr. a laga nr. 91/1991, hafi þó verið gerður skýr áskilnaður um að gögn sem birta skyldi eftir fyrirmælum XIII. kafla laganna yrðu áfram birt á því formi og á þann hátt sem þar væri lýst. Með tilvísun til kaflans í heild í umræddri grein verður ráðið að með fyrirmælum um birtingu gagna er ekki aðeins átt við birtingarmáta stefnu samkvæmt 1. og 2. mgr. 83. gr. heldur jafnframt þær aðrar aðferðir sem nefndar eru í 3. mgr. við að koma stefnu á framfæri og þar eru lagðar að jöfnu við stefnubirtingu.
Var því ekki fallist á að 1. gr. a laga nr. 91/1991 hefði verið ætlað að heimila rafræna staðfestingu stefnda á móttöku stefnu jafngilti yfirlýsingu undirritaðri með eigin hendi um að eintak stefnu hefði verið afhent stefnda. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Það vekur spurningu af hverju Hæstiréttur orðar niðurstöðuna með umræddum hætti þar sem móttakandi stefnunnar undirritar fyrirvara í henni með fullgildri rafrænni undirskrift sem er eftirfarandi: “Samrit stefnunnar hefur verið afhent mér. Þetta er staðfest með rafrænni undirritun“. Það verður að teljast misvísandi að kalla þessa aðferð “rafræna staðfestingu stefnda á móttöku stefnu” sem geti ekki jafngilt yfirlýsingu undirritaðri með eigin hendi.
Er pappírsformið tryggari leið en rafrænar stefnubirtingar?
Niðurstaða Hæstaréttar vekur upp spurningar um hvort sé til hagsbóta fyrir réttarkerfið og samfélagið að halda fast í kröfur um stefnubirtingu á pappírsformi í ljósi tækniframfara. Rafræn skjöl sem undirrituð eru með fullgildri rafrænni undirskrift er ekki hægt að breyta án þess að undirskriftin verði ógild. Auk þess fylgja slíkum undirskriftum fullgildir tímastimplar, sem tryggja rekjanleika og tíma undirritunar og veita betra öryggi en pappírsskjöl.
Hefðbundnar undirskriftir á pappír eru háðar mati á rithönd, sem getur verið ónákvæmt og óvísindalegt, eins og dæmi eru um í íslenskri dómaframkvæmd. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 40/2006 var rithandasérfræðingur fenginn til að meta áreiðanleika undirskrifta, en niðurstaðan var byggð á huglægu mati þar sem talið var „ósennilegt“ að tilteknar undirskriftir væru réttar.
Auk þess eru gögn sem sýna í öruggri rekjanlegri gagnasendingarþjónustu Justikal að móttakandi skjalsins hafi sannanlega fengið samrit þess afhent. Þegar notandi hefur auðkennt sig með fullgildum rafrænum skilríkjum þá fyrst fær hann að sjá efni skjalsins og getur því valið að undirrita skjalið eða ekki. Auk þess er allar snertingar notanda skráðar í atburðaskrá með sérhverri gagnasendingu. Dæmi eru um að pappírseintök týnist ef þau eru afhent öðrum en stefnda sjálfum, svo sem sambýlismanni, nágranna o.s.frv., á meðan rafræna eintakið er áfram aðgengilegt eftir að undirritandinn hefur móttekið gagnið og getur jafnframt nálgast það aftur með því að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum.
Þegar gögn eru afhent með pappír þá er ekki hægt að sannreyna hvort að samrit stefnu hafi verið afhent viðkomandi nema með því að spyrja aðilann sem afhenti skjalið eða finna einhverskonar yfirlýsingu sem hefur verið undirrituð með bleki um slíkt.
Hafa ber í huga að í dag er nánast ómögulegt að falsa fullgildar rafrænar undirskriftir en hinsvegar er tiltölulega auðvelt að falsa blekundirskriftir og höfum við fjölmörg dæmi um slíkt.
Tæknilausnir og framtíðarsýn
Öryggi rafrænna undirskrifta byggist ekki á myndmerki undirritana heldur á dulituðu gildi sem er útbúið með einkalykli í rafrænum skilríkjum undirritanda og þannig einkvæmt við undirritandann. Auk þess eru upplýsingar í rafrænu undirskriftinni sem sýna að skilríkin eru frá fullgildum útgáfuaðila (Auðkenni) og hvort að skilríkin voru gild við tíma undirritunar og margt fleira. Skilríkjaskipulag eins og Auðkenni hefur byggt upp og regluverk í kringum rafrænar undirskriftir og er byggt til að veita margfalt hærra öryggi heldur en hefðbundnar undirskriftir og til þess að hægt sé að tryggja traust á undirskriftum sem eru framkvæmdar yfir netið án þess að vottar staðfesti hver aðilinn raunverulega er. Justikal notar aðeins fullgildar rafrænar undirskriftir sem uppfylla hæsta fullvissustig og réttaráhrif skv. reglugerðinni og notar jafnframt eIDAS vottaða staðfestingarþjónustu til að sannreyna undirskriftirnar.
Þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar eru fjölmörg önnur svið innan réttarfars þar sem stafrænar lausnir geta komið að notum. Umrædd þjónusta Justikal getur til dæmis nýst til rafrænnar birtingar kröfulýsinga í þrotabú, sem nú er heimilt samkvæmt lögum nr. 53/2024.
Við viljum,eins og áður, undirstrika að í dag er því miður ekki hægt að nota lausn Justikal fyrir stefnubirtingar með rafrænum hætti. Allar aðrar þjónustur Justikal, eins og dómsmál og almenn mál, standa óbreyttar án réttaróvissu.
Við hjá Justikal munum áfram vinna að því að hvetja til nauðsynlegra lagabreytinga á þessu sviði. Réttarkerfið á að þróast með samfélaginu og nýta þær tæknilausnir sem tryggja bæði réttaröryggi og skilvirkni.
Margrét Anna Einarsdóttir
Forstjóri Justikal
Nýjar fréttir
Hæstiréttur staðfestir að stefnur í einkamálum verði að vera á pappír – Hvað þýðir þetta fyrir stafræna málsmeðferð?
Þann 26. febrúar féll dómur Hæstaréttar í máli nr. 1/2025, Menntasjóður námsmanna gegn fyrrverandi skjólstæðingi.
Sparnaðartillaga í Samráðsgátt nýrrar ríkisstjórnar
Tillaga um hagræðingu í ríkisrekstri - stafrænt réttarkerfi.
Nýr eiginleiki: Almenn mál
Notendur hafa nú tvo valkosti í kerfinu þegar þeir stofna ný mál:
Að stofna Almennt mál - Gerir notendum kleift að vinna að máli áður en það er tilbúið til innsendingar til dómstóla.
Að stofna Dómsmál - Gerir notendum kleift að stofna mál og senda öll gögn inn til dómstóla.