15 Jan 2023

Sparnaður ekki úr lausu lofti gripinn

Share

Hugbúnaðarfyrirtækið Justikal hefur sig nú til flugs eftir að hafa fengið 400 milljóna króna fjárfestingu frá Eyri Vexti fyrr á árinu.  Eyrir Vöxtur er fjárfestingarsjóður sem einbeitir sé að samfélagslega ábyrgum verkefnum. Áður hafði Justikal fengið 50 milljóna króna vaxtarstyrk frá Tækniþróunarsjóði, en fjögur ár eru síðan félagið hóf þróun hugbúnaðarlausnar sem gerir lögmönnum og öðrum aðilum kleift að senda gögn rafrænt til dómstóla. 

Lausn Justikal er þannig uppbyggð að málsaðilar fá tilkynningu þegar eitthvað nýtt gerist. Þeir eru því alltaf upplýstir um framvindu mála.

Margrét Anna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi félagsins, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að spennandi tímar séu framundan. Fjölga á starfsmönnum og stórefla þróun en byggja á upp alþjóðlegt sölu- og markaðsteymi til að sækja á erlenda markaði. Engar sambærilegar lausnir eru í boði erlendis að sögn Margrétar. 

Einnig er unnið að því að auka notkun kerfisins á innanlandsmarkaði.

„Maður brennur fyrir því hvað kerfið getur skilað miklum ábata fyrir samfélagið. Hvernig það getur aukið skilvirkni í málsmeðferð og minnkað allt umstang við að fara með mál fyrir dómstóla,“ segir Margrét sem sjálf starfaði við lögmennsku um tíu ára skeið.

Hún segir að kerfið geti sparað íslensku samfélagi 3,3 milljarða króna á ári. Spurð hvernig sú tala er fengin segir Margrét að lagst hafi verið í útreikninga þegar sótt var um styrk frá Tækniþróunarsjóði á sínum tíma. Eitt af því sem sjóðurinn hafi farið fram á í umsóknarferlinu voru rök fyrir sparnaðinum.  „Hann felst m.a. í minni notkun á pappír og tímasparnaði. Það er augljós sparnaður sem hlýst af því ef málsmeðferðartími styttist um 30%. Oft er til dæmis verið að deila um kröfur sem bera dráttarvexti og þannig er auðvelt að sjá fjárhagslegt hagræði af styttri umsýslutíma. Þessi 3,3 milljarða króna tala er ekki úr lausu lofti gripin.“

Lykilatriði í framgangi lausnarinnar var innleiðing nýrrar Evrópureglugerðar, eIDAS, í íslensk lög en með henni var kominn lagarammi um réttaráhrifin við tæknina sem Justikal notar.

Margrét segir að áhrif lausnarinnar séu ekki eingöngu fjárhagslegs eðlis.  „Það er sagt að meðalmaðurinn lendi í 1-2 dómsmálum yfir ævina. Það er þungbært fyrir aðila að reka mál fyrir dómstólum. Ef við getum hraðað málsmeðferðartímanum um 20-30%, lækkað málskostnaðinn og aukið gagnsæið með lausn Justikal þá er það afskaplega jákvætt og gefur fólki hugarró.“

Þá segir Margrét að lausnin muni gera dómstóla aðgengilegri fyrir tekjulægri aðila. 

Um starfsmannamálin segir Margrét að á dögunum hafi Sölvi Rúnar Pétursson verið ráðinn markaðsstjóri Justikal. „Svo er gæða – og öryggisstjóri að koma til okkar eftir áramót sem mun leiða okkur í gegnum ISO gæðavottun.“

Ennfremur hefur Justikal yfir tólf manna forritunarteymi að ráða sem staðsett er erlendis. „Það er allt framúrskarandi hæfileikaríkt fólk. Gæði lausnarinnar eru algjörlega þeim að þakka.“

Spurð um þróun lausnarinnar, nýjungar og viðbætur segir Margrét að Justikal sé búið að gera þróunaráætlun fyrir næstu þrjú ár. „Við erum stöðugt að þróa og bæta lausnina. Við erum sífellt að fjölga eiginleikum og bæta notendaviðmótið. Við gáfum út uppfærslu síðast í nóvember sl. með fjölmörgum nýjum eiginleikum. Það sýnir glöggt hraðann í þróuninni. Þetta er mjólk sem súrnar ekki. Þjónustan batnar bara og batnar. Varan verður í raun aldrei að fullu tilbúin.“

Margrét ítrekar mikilvægi þess að vera fyrst á markaðinn með dómstólalausn. Vitað sé að aðrir muni fylgja í kjölfarið. „Því skiptir öllu að halda lausninni framúrskarandi og veita alltaf fyrsta flokks þjónustu. Við hlustum á rödd notenda og tökum mið af þeirra ábendingum í okkar hönnun og þróun.“

Lögfræðiheimurinn hefur oft verið talinn íhaldssamur. „Helsta áskorun okkar eru hefðir. Það er hefð fyrir því á Íslandi að öll málsgögn í dómsmálum séu á pappír. Það var því áskorun fyrir okkur þegar við vorum að byrja að gera þetta allt stafrænt. Við þurftum samþykki íslenskra stjórnvalda fyrir því að dómstólar mættu taka við rafrænum gögnum. Það var ekki auðvelt fyrir lítið nýsköpunarfyrirtæki, en ég er þakklát framsýni Dómsmálaráðuneytisins og Dómstólasýslunnar að hleypa okkur að markaðnum. Þau sáu þann ábata sem þetta skilaði notendum og starfsfólki dómstóla.“

Margrét segir að vel gangi að fjölga notendum á Íslandi. Hún segir að lögmenn sjái þann ábata sem fylgir lausninni og þeim finnist hún nútímaleg. „Lögmenn sjá að þetta er leið til að veita framúrskarandi þjónustu. Öryggi er líka mjög mikilvægt í þessum geira. Þegar notendur sjá að það er fyrsta flokks tryggir það okkur enn frekari framgang á markaðinum.“

Eitt af því sem styður við notkun lausnarinnar til framtíðar er tilkoma rafrænna skilríkja sem notuð eru í auknum mæli. Þau er ekki hægt að prenta út eins og Margrét útskýrir, en kerfi Justikal heldur utan um skjöl sem eru rafrænt undirrituð. „Dómstólar verða að geta tekið á móti rafrænt undirrituðum skjölum og sannreynt þau. Justikal gerir þeim það kleift.“

Um viðskiptamódelið segir Margrét að markaðurinn borgi fyrir lausnina. Hún sé seld lögmönnum sem greiði fyrir notkun hennar meðan á málarekstri stendur. Dómstólar og skjólstæðingar nota lausnina frítt. 

Einn af nýju eiginleikunum í lausninni er möguleikinn á að færa persónulegar athugasemdir inn í skjöl. Það gerir vinnuna skilvirkari og þægilegri fyrir alla að sögn Margrétar og notendaupplifunina þægilegri og betri. „Notandinn er alltaf í fyrsta sæti og við höfum náð að hanna viðmót kerfisins þannig að hverfandi þörf er á kennslu og leiðsögn. Kerfið leiðir þig áfram.“

Lausnin var fyrst prófuð í Landsrétti. „Forsenda fyrir samþykki lausnarinnar fyrir dómstóla var að hún væri prófuð í raunaðstæðum og sannað væri að hún virkaði eins og henni var lýst. Það gekk framar vonum og við fengum meðmælabréf frá öllum þátttakendum. Þeim líkaði mjög vel við lausnina.“

Um komandi útrás segir Margrét að Justikal sé búið að gera samkeppnisgreiningar á erlendum mörkuðum. „Við fórum ítarlega í gegnum það áður en Eyrir Vöxtur kom að félaginu. Evrópulöggjöfin á um alla dómstóla í álfunni og það er skylda þeirra allra að taka við rafrænt undirrituðum gögnum, sannreyna þau og varðveita.“

Margrét segir að viðskiptamódelið falli Evrópubúum einnig í geð. „Það að fá lausnina án nokkurs kostnaðar fyrir ríkið er mjög jákvætt í þeirra huga. Við munum á næstu vikum hafa samband við alla helstu markaði í Evrópu. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga.“

Um fjárfestingu Eyris Vaxtar segist Margrét vera gríðarlega ánægð með samstarfið, enda deili Justikal og Eyrir Vöxtur sömu sjálfbærnimarkmiðum.  Bæði fyrirtækin vilji bæta samfélagið. 

Margrét vonast til að lausnin muni í fyllingu tímans skapa miklar tekjur fyrir íslenskt samfélag. 

„Það er lykilatriði fyrir okkur að fara á erlenda markaði. Það mun vonandi skila sér í miklum skatttekjum fyrir Ísland og fjölgun starfa hér á landi.“

Pottur er brotinn í fjárfestingum í tæknifyrirtækjum sem konur stjórna að sögn Margrétar. Því var fjárfesting Eyris Vaxtar í Justikal enn mikilvægari en ella. „Alþjóðlega fer innan við 1% af fé vísisjóða til fyrirtækja í tæknigeiranum sem konur reka. 99% fer til karla.“

Margrét segir tölurnar tala sínu máli. Fjárfesting í tæknifyrirtæki rekið af konu skili að meðaltali hærri tekjum en fyrirtæki sem karl rekur. Hún er s.s. ekki áhættumeiri að sögn Margrétar. 

Hún segist vilja verða fyrirmynd og hvatning fyrir aðrar konur í tæknigeiranum.  „Í þessum málaflokki held ég að fjölbreytileikinn skili okkur bestum árangri. Það að fá öll sjónarmið og sjónarhorn að borðinu kemur ekki nema horft sé öllum stundum til allra kynja.“