Sparnaðartillaga í Samráðsgátt nýrrar ríkisstjórnar
Tillaga um hagræðingu í ríkisrekstri - stafrænt réttarkerfi
Justikal er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem hefur þróað stafrænt réttarkerfi sem gerir aðilum í dómsmálum kleift að meðhöndla gögn á öruggan og rekjanlegan hátt í samræmi við lögum rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti nr.55/2019, sbr. EU reglugerð nr. 910/2014 (eIDAS reglugerðin).
Lausn Justikal er dómstólum aðgengileg án kostnaðar og til frambúðar
Justikal hefur átt í samtali við ríkið frá árinu 2018 um notkun lausnar sinnar fyrir réttarkerfið á Íslandi. Árið 2021 fékk Justikal samþykki frá Dómstólasýslunni fyrir því að allir héraðsdómstólar myndu taka við gögnum sem send eru í gegnum lausnina. Í samþykkinu kemur fram að enginn kostnaður falli á dómstólana og að Dómstólasýslan hafi heimild til að afturkalla samþykkið, ef lausnin uppfyllir ekki öryggiskröfur hennar eða ef hún reynist of flókin í notkun.
Ríkið hefur unnið að þróun Réttarvörslugáttar frá árinu 2019. Fyrir þetta verkefni var ekki farið í sérstakt útboð, sem gerði það ómögulegt fyrir Justikal að bjóða fram lausn sína. Árið 2019 var hins vegar auglýst útboð fyrir þverfagleg teymi fyrir Stafrænt Ísland. Í útboðslýsingu kom fram að teymin myndu vinna í samvinnu við verkkaupa að verkefnum fyrir nýtt vefkerfi og nýjan vef island.is, sem miðlæga þjónustugátt. Verkefnin sneru að þróun stafrænna lausna fyrir Stafrænt Ísland og island.is.
Frekari upplýsingar um útboðið má finna hér. Að loknu útboði var teymi frá Kolibri valið til að þróa Réttarvörslugátt fyrir ríkið, sem er samheiti yfir verkefni sem miða að því að gera réttarvörslukerfið stafrænt.
Við teljum að þróun Réttarvörslugáttarinnar feli í sér óhóflega framleiðslu á lausn fyrir réttarkerfið sem er að hluta til í beinni samkeppni við lausn Justikal. Þetta skapar hættu á sóun á skattfé og dregur jafnframt úr hvata markaðarins til nýsköpunar fyrir hið opinbera. Í raun er íslenska ríkið, með markvissum hætti, að fara inn á markað sem nú þegar er virkur samkeppnismarkaður og taka sér einokunarstöðu. Að því er best verður séð, verður lausn ríkisins boðin neytendum án endurgjalds.
Árið 2024 opna héraðsdómstólarnir vefgátt til að senda gögn til dómstólanna. Þessi lausn er í beinni samkeppni við Justikal og virðist ekki hafa farið í gegnum sérstakt útboð. Lausn ríkisins er boðin markaðnum án kostnaðar, á meðan lausn Justikal kostar 6.900 kr. fyrir hvert dómsmál á mánuði, á meðan málið er í vinnslu.
Ríkið hætti þróun lausna sem eru í beinni samkeppni við einkamarkaðinn
Justikal leggur til að ríkið hætti þróun lausna sem eru í beinni samkeppni við einkamarkaðinn og nýti í staðinn lausnir sem þegar eru til staðar. Með þessu má forðast aukin umsvif og kostnað ríkisins. Sérstaklega ber að líta til þess að samstarf við kerfi eins og Justikal kostar ríkið ekki krónu, þar sem notendur lausnarinnar greiða fyrir notkun hennar. Auk þess mun þetta leiða til verulegrar vinnuhagræðingar fyrir starfsfólk dómstóla, þar sem öll gögn verða send rafrænt.
Lausn Justikal býður nýjan valmöguleika fyrir markaðinn, þar sem aðili sem stofnar mál greiðir mánaðargjald á meðan málið er í vinnslu. Greiðslur stöðvast þegar málinu lýkur, en stofnandi hefur áfram fullan aðgang að öllum gögnum málsins. Aðrir aðilar, svo sem lögmaður gagnaðila, skjólstæðingar, aðstoðarmenn og starfsfólk dómstólanna, greiða ekkert fyrir notkun lausnarinnar, einungis stofnandi málsins ber kostnaðinn.
Ávinningurinn er ótvíræður
Það er ótvíræður ávinningur af því að einkamarkaðurinn sjái um þróun hugbúnaðar sem er notaður í opinberri þjónustu. Í fyrsta lagi fær markaðurinn möguleikann á að velja framúrskarandi tækni. Í öðru lagi fylgja hærri kröfur einkamarkaðnum, þar sem samkeppni tryggir stöðuga og áframhaldandi þróun. Í þriðja lagi skapast tækifæri til heilbrigðrar samkeppni, þar sem þjónustuaðilar keppast við að veita bestu mögulegu þjónustu á hagstæðasta verði.
Við hvetjum hið opinbera til að nýta íslenska nýsköpun frá einkamarkaðnum í opinberri þjónustu. Að okkar mati er það óhagkvæmt og sóun á almannafé ef ríkið hyggst þróa allar lausnir sjálft. Slíkt leiðir til sokkins kostnaðar sem skilar sér ekki til baka, þar sem ríkið selur ekki lausnirnar áfram til þriðja aðila.
Ríkið stefnir á næstu árum að ljúka við þróun á Réttarvörslugáttinni og, að því er best verður séð, bjóða markaðnum að nota hana án endurgjalds. Hún verður þá í beinni samkeppni við Justikal. Við teljum að slíkt muni líklega leiða til þess að rekstrargrundvöllur Justikal á íslenskum markaði hverfi. Þetta væri afar sorgleg þróun, sérstaklega í ljósi þess að ríkið hefur sjálft stutt við uppbyggingu félagsins með styrkjum frá Tækniþróunarsjóði.
Sérhæfing Justikal felst í öruggri varðveislu gagna með notkun traustþjónusta í samræmi við lög nr. 55/2019. Öll gögn sem send eru með lausn Justikal til dómstóla eru tryggð með rafrænu innsigli og fullgildum tímastimpli, sem sýnir á sannanlegan hátt hvenær gögnin voru send viðkomandi dómstól. Rafræna innsiglið tryggir jafnframt heilleika skjalsins, sem þýðir að ekki er unnt að breyta innihaldi þess án þess að innsiglið rofni.
Auk þess hafa notendur Justikal aðgang að eIDAS-vottaðri staðfestingarþjónustu, sem getur sannreynt skjöl með rafrænum undirskriftum og/eða rafrænum innsiglum. Niðurstöður staðfestingarþjónustunnar eru bindandi fyrir alla dómstóla í Evrópu, þar sem þjónustan er eIDAS-vottuð.
Aukið samstarf - Nú er tækifærið
Í maí 2024 lauk Justikal við ISO 27001 og ISO 27701 vottanir, sem staðfesta örugga meðhöndlun gagna í lausninni.
Justikal vill starfa á eðlilegum forsendum á Íslandi. Lausnin er nýr valkostur fyrir markaðinn, þar sem notendur geta sent gögn rafrænt til dómstóla, án þess að ríkið greiði fyrir notkun hennar.
Við Íslendingar eigum raunhæft tækifæri á að verða leiðandi með eitt fullkomnasta réttarkerfi í heiminum ef við setjum ekki sjálf stein í götu okkar. Sparnaður fyrir íslenskt samfélag gæti numið um 3.300 milljónum króna ár hvert. Við getum lækkað kostnað fyrir þá sem leita réttar síns fyrir dómstólum, hraðað málsmeðferð um allt að 30%, og stuðlað að jákvæðum umhverfislegum áhrifum með því að draga úr pappírsnotkun og akstri til og frá dómstólum með pappírsgögn.
Samstarf við íslensk nýsköpunarfyrirtæki eins og Justikal er lykilatriði í uppbyggingu hagkvæms og stafræns réttarkerfis, sem getur gert Ísland að fyrirmynd fyrir önnur lönd.
Með von um jákvæða umræðu og uppbyggilegt samstarf,
Margrét Anna Einarsdóttir
Forstjóri Justikal
mae@justikal.com | +354 868 4165 | Akralind 3, 201 Kópavogi
Nýjar fréttir
Sparnaðartillaga í Samráðsgátt nýrrar ríkisstjórnar
Tillaga um hagræðingu í ríkisrekstri - stafrænt réttarkerfi.
Nýr eiginleiki: Almenn mál
Notendur hafa nú tvo valkosti í kerfinu þegar þeir stofna ný mál:
Að stofna Almennt mál - Gerir notendum kleift að vinna að máli áður en það er tilbúið til innsendingar til dómstóla.
Að stofna Dómsmál - Gerir notendum kleift að stofna mál og senda öll gögn inn til dómstóla.
Nú geta fyrirtæki sett sitt útlit á öruggar rekjanlegar gagnasendingar í Justikal
Eftir samtöl við notendur kynnum við nú eftirfarandi breytingu á öruggum rekjanlegum gagnasendingum. Nú geta notendur bætt nafni, myndmerki og aðallit síns fyrirtækis í notendastillingum sínum.